Stóra spurningin!

Niðurskurður er óhjákvæmilegur, það erum við öll sammála um. Spurningin er hins vegar, hvernig og hvar skuli skorið niður? Ákvarðanir varðandi velferðakerfið sem okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp, snerta líf og lífsgæði fjölda fólks. En hvernig samfélagi vil ég búa í? Á ég að gæta bróður míns eða er það lögmálið um að þeir hæfustu komist af sem gildir? Þetta er mikilvægt að haft sé  að leiðarljósi þegar niðurskurðarhnífnum er beitt. Tilviljunarkenndur niðurskurður gefur ekki góða raun og á máltækið í upphafi skyldi endinn skoða vel í þessu samhengi því niðurskurður í dag getur kostað meira en sparað er þegar til lengri tíma er litið. Barnavernd og aðstoð við börn með hegðunarvandamál er skýrt dæmi um slík mál.

Barnæskan er oftast stuttur tími í lífi einstaklings en gífurlega mikilvægur. Þar er lagður grunnur að því lífshlaupi sem framundan er. Vandamál barna hverfa sjaldnast heldur verða oft alvarlegri með árunum og þá oft kostnaðarsamari fyrir samfélagið.

Athyglisbrestur með ofvirkni, ADHD (Attention Deficit Hyperactivity Disorder) er ein algengasta hegðunarröskun sem greind er hjá börnum. Talið er að 3-5% barna á grunnskólaaldri séu með ADHD en í dag eru það um það bil 20% grunnskólabarna að meðaltali sem þurfa sérúrræði í grunnskólum landsins. Þess vegna er ekki undarlegt að umræðan um athyglisbrest með ofvirkni hafi verið áberandi í þjóðfélaginu síðustu ár og virðist sem einstaklingum með þessi einkenni fari fjölgandi.  Það er margt sem bendir til að svo sé ekki, heldur er það breytt þjóðfélag sem gerir þessa einstaklinga meira áberandi. Fordómar og fáfræði eru áberandi í samfélaginu þegar umræða um ADHD ber á góma og uppeldislegum aðstæðum oft kennt um hegðunareinkennin. ADHD er mest rannsakað af hegðunarröskunum barna og niðurstöður sýna að þetta er viðvarandi hegðunarröskun af taugalíffræðilegum toga sem á rætur að rekja til röskunar á starfsemi heilans. Mikilvægt er að hafa í huga að ADHD er líkamlegt ástand sem hefur áhrif á líðan og framkomu einstaklinga. Hegðun barna með ADHD getur verið illskiljanleg umhverfi þeirra og veldur þeim oft erfiðleikum. Ef  einstaklingar með ADHD fá ekki viðeigandi úrræði og mæta skilningi samfélagsins getur þetta markað þá sem fullorðna og eru þá líkur á að fram komi andfélagsleg og jafnvel hættuleg hegðun seinna meir. Talið að um helmingur fanga í fangelsum á Íslandi séu með ADHD. Það er því ljóst hvernig sem á það er litið að það samfélagslega hagkvæmt, fyrir utan að það er samfélagsleg skylda okkar að hlúa vel að þessum einstaklingum. Í réttum aðstæðum geta einstaklingar með ADHD verið afburða greindir, skemmtilegir og frumlegir einstaklingar , nærtækast er að nefna Jón Gnarr stofnanda Besta Flokksins.

Það skiptir máli þegar á að finna viðeigandi úrræði hvort vandamál barns er af félagslegum eða líffræðilegum toga en hver sem orsökin er getur aðgerðaleysi haft alvarlegar afleiðingar þegar til framtíðar er litið hvort sem litið er til einstaklingsins eða samfélagsins. Það er óraunhæft að gera ráð fyrir öðru en að þörf fyrir sérfræðiþjónustu í skólum muni aukast í því ástandi sem skapast hefur í þjóðfélaginu eftir bankahrunið.. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af sparnaði í skólakerfinu, því raunin hefur verið sú að með því fyrsta sem skorið er niður er sérfræðiþjónusta. 

Það einkennir oft aðgerðir íslenskra stjórnvalda að það er alltaf verið að bregðast við þegar í óefni er komið og ástandið orðið að neyðarástandi. Því miður hefur skort verulega á þá hugsun að í upphafi skyldi endinn skoða. Svarið við spurningunni „hvernig samfélagi vil ég búa í" er ekki augljóst en ein besta forvörnin og arðsamasta fjárfesting samfélagsins er að huga vel að börnunum.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband