28.5.2010 | 16:37
Mikilvægi þess að taka þátt!
Á fjögura ára fresti er það borgaraleg skylda okkar að skoða með gagnrýnum augum stöðuna í samfélagi okkar og taka afstöðu til þess hver staðan er og hvort við séum á réttri leið. Við þurfum ekki að hafa áhuga á pólitík sem slíkri en öll höfum við skoðun á því hvernig samfélagi við viljum búa í, með öðrum orðum hvert skattpeningar okkar fara.
Það stefnir í dræma þátttöku í sveitastjórnarkosningunum þetta árið. Það er skiljanlegt eftir það sem að undan er gengið. Fólk er komið með nóg, orðið þreytt á að hlusta á stjórnmálamenn sem virðast segja eitt en gera annað hvort sem það er sveitastjórnarpólitík eða landsmálapólitík. Lausnin hjá mörgum virðist vera að hætta að taka þátt og sleppa því að kjósa.
En við höldum samt áfram að þiggja opinbera þjónustu, til dæmis skóla og heilsugæslu og öll borgum við enn skattana okkar. Það er einmitt mergur málsins, við megum ekki gefast upp. Í gegnum árin hafa Íslendingar byggt upp öflugt samfélag þar sem boðið er upp á góða heilbrigðisþjónustu, skóla,félagsþjónustu og allt sem gott velferðaþjóðfélag hefur upp á að bjóða, Við verðum að standa vörð um samfélagið okkar og við gerum það meðal annars með því að nýta kosningarétt okkar.
Í Framsóknarflokknum hefur átt sér stað mikil endurnýjun og við höfum horfst í augu við það að á tímabili fjarlægðist flokkurinn grasrótina, hjarta flokksins og grunnstefnuna, samvinnustefnuna. Við viljum ekki gleyma eða breiða yfir fortíðina heldur horfast í augu við hana og læra af henni. En við megum ekki gleyma okkur í uppgjörinu, við verðum að halda áfram. Veljum fólk sem þorir, hefur kjark til að horfast í augun við staðreyndir og takast á við þau verkefni sem framundan eru, setjum X við B næsta laugardag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.