29.5.2010 | 12:53
Stóra spurningin!
Niðurskurður er óhjákvæmilegur, það erum við öll sammála um. Spurningin er hins vegar, hvernig og hvar skuli skorið niður? Ákvarðanir varðandi velferðakerfið sem okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp, snerta líf og lífsgæði fjölda fólks. En hvernig samfélagi vil ég búa í? Á ég að gæta bróður míns eða er það lögmálið um að þeir hæfustu komist af sem gildir? Þetta er mikilvægt að haft sé að leiðarljósi þegar niðurskurðarhnífnum er beitt. Tilviljunarkenndur niðurskurður gefur ekki góða raun og á máltækið í upphafi skyldi endinn skoða vel í þessu samhengi því niðurskurður í dag getur kostað meira en sparað er þegar til lengri tíma er litið. Barnavernd og aðstoð við börn með hegðunarvandamál er skýrt dæmi um slík mál.
Barnæskan er oftast stuttur tími í lífi einstaklings en gífurlega mikilvægur. Þar er lagður grunnur að því lífshlaupi sem framundan er. Vandamál barna hverfa sjaldnast heldur verða oft alvarlegri með árunum og þá oft kostnaðarsamari fyrir samfélagið.
Athyglisbrestur með ofvirkni, ADHD (Attention Deficit Hyperactivity Disorder) er ein algengasta hegðunarröskun sem greind er hjá börnum. Talið er að 3-5% barna á grunnskólaaldri séu með ADHD en í dag eru það um það bil 20% grunnskólabarna að meðaltali sem þurfa sérúrræði í grunnskólum landsins. Þess vegna er ekki undarlegt að umræðan um athyglisbrest með ofvirkni hafi verið áberandi í þjóðfélaginu síðustu ár og virðist sem einstaklingum með þessi einkenni fari fjölgandi. Það er margt sem bendir til að svo sé ekki, heldur er það breytt þjóðfélag sem gerir þessa einstaklinga meira áberandi. Fordómar og fáfræði eru áberandi í samfélaginu þegar umræða um ADHD ber á góma og uppeldislegum aðstæðum oft kennt um hegðunareinkennin. ADHD er mest rannsakað af hegðunarröskunum barna og niðurstöður sýna að þetta er viðvarandi hegðunarröskun af taugalíffræðilegum toga sem á rætur að rekja til röskunar á starfsemi heilans. Mikilvægt er að hafa í huga að ADHD er líkamlegt ástand sem hefur áhrif á líðan og framkomu einstaklinga. Hegðun barna með ADHD getur verið illskiljanleg umhverfi þeirra og veldur þeim oft erfiðleikum. Ef einstaklingar með ADHD fá ekki viðeigandi úrræði og mæta skilningi samfélagsins getur þetta markað þá sem fullorðna og eru þá líkur á að fram komi andfélagsleg og jafnvel hættuleg hegðun seinna meir. Talið að um helmingur fanga í fangelsum á Íslandi séu með ADHD. Það er því ljóst hvernig sem á það er litið að það samfélagslega hagkvæmt, fyrir utan að það er samfélagsleg skylda okkar að hlúa vel að þessum einstaklingum. Í réttum aðstæðum geta einstaklingar með ADHD verið afburða greindir, skemmtilegir og frumlegir einstaklingar , nærtækast er að nefna Jón Gnarr stofnanda Besta Flokksins.
Það skiptir máli þegar á að finna viðeigandi úrræði hvort vandamál barns er af félagslegum eða líffræðilegum toga en hver sem orsökin er getur aðgerðaleysi haft alvarlegar afleiðingar þegar til framtíðar er litið hvort sem litið er til einstaklingsins eða samfélagsins. Það er óraunhæft að gera ráð fyrir öðru en að þörf fyrir sérfræðiþjónustu í skólum muni aukast í því ástandi sem skapast hefur í þjóðfélaginu eftir bankahrunið.. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af sparnaði í skólakerfinu, því raunin hefur verið sú að með því fyrsta sem skorið er niður er sérfræðiþjónusta.
Það einkennir oft aðgerðir íslenskra stjórnvalda að það er alltaf verið að bregðast við þegar í óefni er komið og ástandið orðið að neyðarástandi. Því miður hefur skort verulega á þá hugsun að í upphafi skyldi endinn skoða. Svarið við spurningunni hvernig samfélagi vil ég búa í" er ekki augljóst en ein besta forvörnin og arðsamasta fjárfesting samfélagsins er að huga vel að börnunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2010 | 16:37
Mikilvægi þess að taka þátt!
Á fjögura ára fresti er það borgaraleg skylda okkar að skoða með gagnrýnum augum stöðuna í samfélagi okkar og taka afstöðu til þess hver staðan er og hvort við séum á réttri leið. Við þurfum ekki að hafa áhuga á pólitík sem slíkri en öll höfum við skoðun á því hvernig samfélagi við viljum búa í, með öðrum orðum hvert skattpeningar okkar fara.
Það stefnir í dræma þátttöku í sveitastjórnarkosningunum þetta árið. Það er skiljanlegt eftir það sem að undan er gengið. Fólk er komið með nóg, orðið þreytt á að hlusta á stjórnmálamenn sem virðast segja eitt en gera annað hvort sem það er sveitastjórnarpólitík eða landsmálapólitík. Lausnin hjá mörgum virðist vera að hætta að taka þátt og sleppa því að kjósa.
En við höldum samt áfram að þiggja opinbera þjónustu, til dæmis skóla og heilsugæslu og öll borgum við enn skattana okkar. Það er einmitt mergur málsins, við megum ekki gefast upp. Í gegnum árin hafa Íslendingar byggt upp öflugt samfélag þar sem boðið er upp á góða heilbrigðisþjónustu, skóla,félagsþjónustu og allt sem gott velferðaþjóðfélag hefur upp á að bjóða, Við verðum að standa vörð um samfélagið okkar og við gerum það meðal annars með því að nýta kosningarétt okkar.
Í Framsóknarflokknum hefur átt sér stað mikil endurnýjun og við höfum horfst í augu við það að á tímabili fjarlægðist flokkurinn grasrótina, hjarta flokksins og grunnstefnuna, samvinnustefnuna. Við viljum ekki gleyma eða breiða yfir fortíðina heldur horfast í augu við hana og læra af henni. En við megum ekki gleyma okkur í uppgjörinu, við verðum að halda áfram. Veljum fólk sem þorir, hefur kjark til að horfast í augun við staðreyndir og takast á við þau verkefni sem framundan eru, setjum X við B næsta laugardag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2010 | 11:56
Það er komin tími til að forgangsraða
Nýleg fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar er áhugaverð lesning, en því miður verð ég vör við mikla tregðu við að horfast í auga við þann vanda sem Íslenskt þjóðfélag stendur frami fyrir og ekki síst Mosfellsbær. Samkvæmt nýrri greiningu Seðlabanka Íslands sem var kynt 12. apríl síðastliðin á stöðu íslenskara heimila kemur fram að 24 þúsund heimili glími enn við greiðsluerfiðleika þrátt fyrir áhrif þeirra aðgerða sem ríkistjórn VG og Samfylkingar hefur gripið til. Í skýrslunni kemur fram að vísbendingar eru um að um þriðjungur einstæðra foreldra og 27% hjóna með börn eigi í greiðsluvanda. Einnig var aldurssamsetningu skuldugustu fjölskyldnanna skoðuð, niðurstaðan var að tæplega 40% ungs barnafólks séu enn á mörkum þess að ná endum saman. Hlutfall heimila í vanda virðist einnig vera hæst þar sem ný hverfi litu dagsins ljós í uppsveiflu síðustu ára, þar sem líklegt er að ungar barnafjölskyldur hafa búið um sig. Þetta er raunin í Mosfellsbæ, hér hefur íbúafjöldin aukist hratt og hlutfall ungra barnafjölskyldna hátt.
Úr þessum tölum má lesa að börn og unglingar eru sá hópur sem bankahrunið bitnar eina verst á. Það kemur líka meðal annars fram í verulegum fjölgunum á barnaverndartilkynninga, ástæður tilkynninga hafa breyst og málin virðast vera alvarlegri samkvæmt nýlegri skýrslu Barnaverndarstofu. Skortur á fjármagni og starfsfólki leiðir óhjákvæmilega til þess að forgangsraða þurfi tilfellum og meta hvaða aðgerða skal gripið til út frá alvarleika þeirra. Þetta setur barnaverndar starfsmenn í erfiða stöðu, hver er mælikvarðinn, hvenær líður barni nógu illa og hvenær eru aðstæður nógu slæmar?
Það er óraunhæft að gera ekki ráð fyrir því að það ástand sem skapast hefur í þjófélaginu hafi ekki áhrif inn í skólakerfið með auknu álagi og meiri þörf á sérfræðiþjónustu. Mikilvægt er að skólarnir fái aðstoð við að bregðast við þeim vanda sem blasir við þeim, því þetta er vandi sem getur sett mark á heila kynslóð.
Hvernig ætlar Mosfellsbær að bregðast við þessum vanda?
Í fjárhagsáætlun er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir að bregðast við þessu ástandi. Reyndar er fjölskyldusvið eina sviðið þar sem ekki var dregið saman en miðað við þau verkefni sem eru framundan er það ekki ásættanlegt. Það er ekki trúverðugt að horfa til ríkistjórnarinnar og ætla henni að leysa málin og bjarga fjölskyldum landsins, og sú leiða að skipa í nefnd án þess að henni fylgi fjármagn til aðgerða er ekki vænlegt til árangurs. Sveitafélagið ber ábyrgð á velferð íbúa þess og hefur framfærsluskyldu þegar þeir eru ekki færir um það sjálfir eða hafa ekki möguleika á því. Hvað gerir fjölskyldan þegar tekjur minnka! Það er komin tími til að forgangsraða
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2010 | 20:12
Úrslit í prófkjöri framsóknarfélaganna í Mosfellsbæ
Marteinn bæjarfulltrúi fékk 68,7% atkvæða í 1. sæti í prófkjöri framsóknarfélaganna í Mosfellsbæ sem var það fyrsta í sögu félagsins.
Mikil endurnýjunvar á lista framsóknarmanna í Mosfellsbæ og jafnt hlutfall er á milli kynjanna.
Röð efstu sex var sem hér segir:
- Marteinn Magnússon með (68,7%) greiddra atkvæða í 1. sæti
- Bryndís Bjarnarson með (55,7%) greiddra atkvæða í 1.-2. sæti
- Snorri Hreggviðsson með (42,6%) greiddra atkvæða í 1.-3. sæti
- Björg Reehaug Jensdóttir með (32,2%) greiddra atkvæða í 1.-4. sæti
- Linda Björk Stefánsdóttir með (41,7%) greiddra atkvæða í 1.-5. sæti
- Sveinbjörn Ottesen með (48,7%) greiddra atkvæða í 1.-6. sæti
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2010 | 23:58
Samheldinn og flottur hópur Framsóknarmanna í Mosfellsbæ
Samheldinn og flottur hópur frambjóðenda! Hópmynd af frambjóðendum í prófkjöri Framsóknarmanna í Mosfellsbæ sem fram fer 27. febrúar 2010. Efri röð: Bryndis Bjarnarson, Eggert Sólberg Jónsson, Sveinbjörn Ottesen, Linda Björk Stefánsdóttir, Marteinn Magnússon og Óli Kárason Tran. Neðri röð: Snorri Hreggviðsson, Guðni Þorbjörnsson og Björg Reehaug Jensdóttir. Á myndina vantar Ástu Björk Benediktsdóttur sem var erlendis.
Myndina tók Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknar í suðvesturkjördæmi (www.siv.is).
Bloggar | Breytt 26.2.2010 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2010 | 15:59
Framboðsfundur Framsóknarmanna í Mosfellsbæ í kvöld kl. 20:00
Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á að kynna sér frambjóðendur Framsóknarmanna í Mosfellsbæ að koma á framboðsfund í kvöld fimmtudaginn 25. febrúar kl. 20:00.
Þar koma fram allir sem gefa kost á sér á listann og kynna sig og sínar áherslur. Einnig gefst gestum kostur á að ræða við frambjóðendur.
Látum okkur málin varða og hittumst í kvöld og ræðum málin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2010 | 10:26
Hressilegt rifrildi
Bestu vinir geta rifist heiftarlega um stjórnmál, jafnvel þannig að vinskapur þeirra bíði þess ekki bætur. Sumir tala um að pólitískar deilur laði fram það versta í fólki. Pólitískar skoðanir okkar spegla lífsskoðanir okkar reynslu og stöðu í lífinu. Oft er þær byggðar á persónulegri reynslu og tilfinningu frekar en rökum, enda er það líka oft sem pólitískar umræður verða mjög ómálefnalegar þegar rökin þrjóta.
Fjölskilda mín hefur alltaf verið frekar pólitísk ef hægt er að orðað það þannig. Þegar móðir mín var á lífi, þá var það siður hjá okkur að hittast á sunnudagsmorgnum og borða saman morgunmat. Bróðir minn áttu á tímabili kærustu sem kom alltaf með honum, einn sunnudaginn vildi hún ekki koma. Hún bar því við að við værum alltaf að rífast og henni finnist óþægilegt að hlusta á okkur. Við komum alveg af fjöllum, rífast! við vorum bara að skiptast á skoðunum og til áherslu auka hækkuðum við aðeins röddina á köflum. Svona eru upplifanir okkar misjafnar, mér finnst fátt skemmtilegra en hressilegar umræður og tek það ekki nærri mér þó viðmælandinn er ekki sammála mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2010 | 12:58
Jafnrétti er ekki einkamál kvenna
Í tilefni þess að nú standa yfir prófkjör og forvöl á framboðslista fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar vil ég hvetja fólk til að huga að hlutföllum kynjanna þegar það kýs sér fulltrúa á lista. Það er löngu úrelt afstaða að stilla konum og körlum upp sem andstæðingum. Það er tímabært að við virðum kosti hvors annars enda bendir reynsla og kannanir til þess að með samvinnu náum við bestum árangri.
Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu samstarfssamning þann 15.maí 2009. Markmið hans er að hlutfall hvors kyns í forystusveit íslensks atvinnulífs verði sem næst 40% í árslok 2013. Fulltrúar allra stjórnmálaafla sem eiga fulltrúa á Alþingi skrifuðu undir samninginn og lýstu þannig stuðningi við markmið hans.
Samningur þessi er í samræmi við lög Framsóknarflokksins og tel ég að framsóknarmenn hafi sýnt gott fordæmi með því að vera fyrstur stjórnmálaflokka á Íslandi til að setja þetta í lög flokksins. Nú verðum við að sýna viljann í verki og gera okkar til þess að auka hlut kvenna í sveitastjórnum landsins sem er ekki vanþörf á.
Það er hagur okkar allra að tryggja að sjónarmið sem flestra íslendina heyrast, það gerum við með því að tryggja konum og körlum, ungum og öldnum jafnan aðgang að starfi okkar. Kynin fara oft ólíka leiðir að markmiðum sýnum, ungt fólk sjá oft nýja leiðir og aldrei megum við að vanmeta þá reynslu sem lífið veitir okkur og útiloka fólk vegna aldurs.
Undirrituð er ný skipuð jafnréttisfulltrúi Framsóknarflokksins. Jafnréttisfulltrúa Framsóknarflokksins er ætlað að vera flokksfélögum, kjördæmissamböndum, þingflokki, framkvæmdastjórn og öllum félagsmönnum til ráðgjafar og aðstoðar í jafnréttismálum.
Vinnum saman að jafnrétti það er hagur okkar allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2010 | 11:31
Öflugur listi hjá Framsóknarmönnum í Mosfellsbæ
Marteinn Magnússon | 1.sæti | ||
Óli Kárason Tran | 5.-6.sæti | ||
Bryndís Bjarnarson | 2.sæti | ||
Guðni Þorbjörnsson | 3.-5.sæti | ||
Björg Reehaug Jensdóttir | 2.-3.sæti | ||
Linda Björk Stefánsdóttir | 3.-4.sæti | ||
Snorri Hreggviðsson | 2.sæti | ||
Eggert Sólberg Jónsson | 5.-6.sæti | ||
Ásta Björk Benediktsdóttir | 2.-3.sæti | ||
Sveinbjörn Ottesen | 4.sæti |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2010 | 10:46
Hvernig samfélagi vil ég búa í?
Meðal frumkvöðla evrópskrar félagsfræði var Frakkinn Émile Durkheim, hann var brautryðjandi þess að skoða skólastarf í ljósi samfélagsþróunar og taldi hann menntaumbætur lykil að því að tryggja samheldni og stöðuleika í samfélaginu. Durkheim lagði mikla áherslu á að hver einstaklingur yrði að njóta sín og jafnframt að tryggja uppeldi til félagslegrar ábyrgðar. Ég held að þessar áherslur Durkheims verði seint úreldar þótt hann hafi mótað kenningar sínar á 20 öldinni. Samheldni sprettur ekki lengur sjálfkrafa upp úr daglegri reynslu og auðvelt er fyrir einstakling að ætla að hann sé engum háður og beri enga ábyrgð því tengsl og hlutverk hvers og eins eru óljós í nútíma samfélagi. Ein markvissasta og áhrifaríkasta leið til að hafa áhrif á þróun samfélagsins er í gegnum menntakerfið. Þess vegna er mjög mikilvægt að skólayfirvöld spyrji sig reglulega að því hvert er markmiðið og hvernig er okkur að takast að ná því.
Hverjar sem skoðanir okkar á Icesave eru og á því sem á undan er gengið í samfélagi okkar, þá eru afleiðingarnar staðreyndir sem við verðum að takast á við. Það liggur fyrir að ríkið og sveitarfélögin verða að draga úr og forgangsraða allri þjónustu. Mjög mikilvægt er að við stöndum vörð um menntakerfi okkar og gleymum ekki hlutverki þess í samfélagi okkar. Mikilvægt er að allur sparnaður og samdráttur sé vel ígrundaður og reynt verði að sjá fyrir um afleiðingarnar til lengri tíma. Tilviljunarkenndur niðurskurður hér og þar getur haft mjög eyðileggjandi áhrif og verið samfélaginu dýrari þegar til lengri tíma er litið.
En samfélagsleg ábyrgð á ekki bara að vera hugtak sem við sjáum í stefnuskrám stjórnmálaflokka, stórfyrirtækja og stofnana heldur eigum við hver og eitt að velta því fyrir okkur í hvernig samfélagi viljum við búa í og hvað getum við gert í okkar nær umhverfi til að komast þangað. Það er auðvelt að fyllast vanmætti þegar við horfum í kringum okkur og efast um að maður fái nokkru áorkað. En þá er mikilvægt að hafa hugfast að við verðum að byrja á okkur sjálfum og jákvætt og vinsamlegt viðmót gerir lífið auðveldara fyrir samferðafólk okkar og okkur sjálf, breytingar til góðs þurfa ekki alltaf að vera flóknar eða kosta peninga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2009 | 10:04
Vindmyllur
Mér líður þessa dagana eins og Sancho Panza aðstoðamanni Don Quixote þegar hann fylgdist með herra sínum berjast við vindmyllurnar. Þetta er ekki góð tilfinning, mig langar helst að snúa mér við og fara, yfirgefa þetta hræðilega ástand. Kannski gæti ég farið til Noregs eða Kanada. En svo verð ég reið, nei ég vill ekki fara ég er íslendingur og vill búa á Íslandi. En mér virðist sem núverandi ríkisstjórn sé algjörlega vanmáttug gegn vandanum sem við okkur blasir, ráðherrar og stjórnarþingmenn virðist ekki skilja vandan. Ég get ekki betur séð en að þeir gera ekkert annað en að takast á við afleiðingar gallaðrar fjármála- og peningastefnu, í staðinn fyrir að ráðast að rótinni sem er kerfið sjálft. Gangur himintunglanna er óbreytanleg staðreynd sem við verðum að laga okkur að, en Íslenska fjármálakerfið flokkast ekki sem slíkt, þó að sumir virðast halda það. Missum ekki sjónar á því að kerfið er búið til af okkur til að þjóna hagsmunum okkar, ekki öfugt. Don Quixote trúði að vindmyllurnar væru vandamálið, en það var einmitt það sem gerði hann hættulegan sjálfum sér og öðrum.
Bloggar | Breytt 26.11.2009 kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)